Sleppa og fara á aðalsíðu

Hugvit og þægindi frá 1926

Nú þegar hátt í öld er liðin frá stofnun fyrirtækisins heldur sænski rúmaframleiðandinn DUX áfram að bjóða upp á þægindi í krafti handverks og hugvits.

Orð: Ben Thomas, Sleeper Magazine

Þegar sænski súkkulaðigerðarmaðurinn Efraim Ljung fór í viðskiptaferð til Chicago árið 1924 grunaði hann sennilega ekki að eftir heimkomuna til Malmö myndi hann fljótlega skipta úr konfektgerð yfir í rúmaframleiðslu, sem fjögur langafabarna hans reka enn í dag.

Sagan segir að Ljung, sem þjáðist af gigt og svaf oft illa, hafi vaknað endurnærður eftir góðan nætursvefn á hótelinu sem hann dvaldi á í Chicago. Þvínæst hafi forvitnin borið hann ofurliði svo hann notaði bréfahníf til að skera gat á dýnuna til að sjá hvað leyndist innan í henni. Þar sá hann raðir af sveigjanlegum stálgormum sem greyptust í huga hans á meðan hann saumaði efnið vandlega saman aftur.

Upp frá þessu áttu dýnur hug hans allan og súkkulaðið fékk að víkja. Hann byrjaði síðan að prófa sig áfram með ýmiss konar stálgorma til að finna réttan styrk og sveigjanleika. Tveimur árum síðar varð fyrsta DUX-rúmið að veruleika. Það var búið nýstárlegu gormakerfi sem tók mið af þyngd og þrýstingi, með hjálp þúsunda spírala. Þegar Erik, sonur Ljung, hóf að framleiða húsgögn úr smiðju sænska hönnuðarins Bruno Mathsson á 7. og 8. áratug 20. aldar var áherslan áfram á að hafa þægindin í fyrirrúmi. Hægindastólarnir Jetson og Pernilla 69, sem eru frá þessu tímabili, eru framleiddir enn í dag og hönnun þeirra fellur algerlega að hinum skandinavíska stíl.

Fjölskyldan hefur ávallt haldið í hugmyndafræði Efraim um að þróa vörur með áherslu á þægindi, notagildi og góða endingu. „Grunngildin okkar hafa alltaf verið framúrskarandi varða þægindi og handverk,“ segir framkvæmdastjórinn Henrik Ljung sem er af fjórðu kynslóð DUX-fjölskyldunnar. Við hittum hann í verksmiðju fyrirtækisins í Sösdala þar sem fámennur hópur handverksmanna vinnur ötullega að framleiðslu stóla og borða fyrir hótel og einstaklinga um allan heim. „Við erum stolt af aðferðunum okkar, sem hafa staðist tímans tönn,“ segir Ljung ennfremur. „Við erum samt sem áður mjög opin fyrir nýrri tækni.“

Tæknin kemur meira við sögur í Porto, þar sem rúma- og áklæðisframleiðsla DUX hefur farið fram í yfir 30 ár. Þar er notast við CAD-hugbúnað og CNC-sníðavélar auk þess sem stór hluti sníðavinnunnar fer fram í höndunum. Þetta sambland arfleifðar og nýsköpunar hefur getið af sér ýmsar nýjungar á borði við yfirdýnu sem er hægt að skipta út og Pascal-kerfið, en það býður upp á útskiptanleg gormahylki til að hægt sé að stilla stífleika rúmanna eftir þörfum. Kerfið er nefnt eftir franska stærðfræðingnum Blaise Pascal og er varið með einkaleyfi. Gormunum er raðað upp eftir þremur þægindasvæðum líkamans – öxlum, mjöðmum og fótleggjum – og síðan er hægt að sérsníða hvert svæði með mjúkum, miðlungs, stífum eða mjög stífum gormum. Á hótelum þýðir þetta að auk þess að geta sérstillt rúmin fyrir hvern gest endast þau einnig lengur þar sem hægt er að skipta út hluta kerfisins eftir þörfum fremur en allri dýnunni þegar gormarnir byrja að slitna. „Þarfir viðskiptavina breytast sífellt og við höfum lagt okkur fram við að mæta þeim þörfum,“ segir Ljung. „Í dag leggjum við æ meiri áherslu á sjálfbærni og umhverfisvernd.“

Hlutaskipt hönnun DUX-vara og efniviðurinn sem þær eru gerðar út falla vel að hugmyndafræðinni um að vernda jörðina með framleiðslu vara sem endast vel. Rúmbotnarnir eru til að mynda gerðir úr timbri frá norðurhluta Svíþjóðar þar sem kaldir vetur geta af sér hægvaxta og harðgera furu. Sænskt stál, hevea-latex og þéttofin bómull eru svo efniviðurinn í gorma, fyllingu og áklæði dýnanna.

Allt þetta, auk einstakra þæginda og sérsniðs DUX-línunnar – allt frá hinu lágstemmda DUX 1001 til lúxusrúmsins DUX Xclusive með aukastuðningi við mjóbak – hefur komið á viðskiptum við ýmis lúxushótel á borð við Grand Hôtel Stockholm auk nafntogaðra íbúðahótela á borð við The Audo í Kaupmannahöfn og Pater Noster í Svíþjóð þar sem gestum er boðið að sofa utandyra í sérhönnuðu rúmi.

„Hótelgeirinn er okkur mjög mikilvægur og við erum stolt af samstarfinu á því sviði,“ segir Kevin Slade, yfirmaður Next Gen-deildar DUX. Hann segir okkur einnig að fyrir 14 árum hafi fyrirtækið opnað eigið hótel í Malmö til að skilja rekstrarhliðina betur. Í dag er DUXIANA vettvangur hugmyndaþróunar þar sem fortíðinni er hampað á sama tíma og vörur fyrir framtíðina verða til en ýmsar nýjar vörur verða kynntar í 106. tölublaði. Fylgist með.

Greinina má finna hér 

Tengt